Château De Pez

Chateau De Pez var upphaflega stofnað af Jean de Briscos á 15. öld og er eitt elsta lénið / þorpið í Saint-Estèphe héraði Frakklands, nánar tiltekið á vinstri bakka Bordeaux.  Pontac fjölskyldan sem þá voru eigendur Château Haut-Brion urðu síðan eigendur í upphafi 16.aldar. Pez víngarðarnir erfðust síðan til barna þeirra og afkomenda. Eignin var í þeirra höndum fram að frönsku byltingunni 1789 og valdatöku Napoleons Bonaparte. Lénið var þá selt sem eign ríkisins og tilheyrði lénið röð fjölskyldna fram til ársins 1995 þegar það var keypt af kampavínshúsinu Louis Roederer. 

Chateau De Pez er af mörgum talið vera eitt best geymda leyndarmál Saint-Estéphe vínhéraðsins í Frakklandi, m.a. vegna þess að framleiðsla þeirra fór lítið út fyrir Frakkland. Allt rauðvínið þeirra seldist upp „heima í héraði“. Eftir kaup Louis Roederer á þessu fræga rauðvínshúsi, þá er Chateau De Pez loksins komið á heimskortið!

Í byrjun 19.aldar (um 1840) var Chateau De Pez skilgreint sem „Cru Borgeois“ meðal rauðvína og hefur verið það alla tíð síðan.

Akrar Château de Pez eru   samtals um 42 hektarar að stærð og framleiðslan er aðallega Merlot og Cabernet Sauvignon þrúgur ásamt örlitlu af  Cabernet Franc og Petit Verdot þrúgum.

Vínhúsið nýtur mikillar viðurkenningar annarra vínhúsa í héraðinu ekki bara fyrir aldurs sakir heldur fyrir afburða rauðvín.

Vegna  gæða framleiðslunnar er Château de Pez eitt af virtustu vínhúsum Bourgeois Supérieur  Médoc héraðs og var endurflokkað sem Cru Bourgeois Exceptionnel árið 2003.